Hljómsveitin Swiss

Hljómsveitin Swiss hefur verið starfrækt með ákaflega síbreytilegum mannskap í alltof langan tíma. Nú er komin mynd á sveitina og prógrammið orðið allnokkuð verulega hressandi. Meðlimir eru Brynjar Páll Björnsson, sem sér um bössun, Magnús Örn Magnússon, sem lemur húðir (og hljómsveitina til verka) og Ingvar Arinbjörn Valgeirsson sem syngur og fer fimum fingrum um gítarhálsinn (og hárið á sér)

Sveitin byrjaði líklega vorið 2004, þegar Ingvar, ásamt þeim Stefáni Erni Gunnlaugssyni hljómborðsgúrú (nú í Buff), Kristni Gallagher bassaleikara (nú í Dalton) og Gunnari Þorsteinssyni trommara (ekki í Krossinum, heldur í Bermúda) fóru að spila saman án þess að nokkur bæði þá um það. Á næstu vikum og mánuðum duttu menn inn og út, sumir inn og út og inn aftur. Meðal fjölmargra annara sem voru um lengri eða skemmri tíma voru t.d. Egill Rafnsson Sign-trymbill, Ingi Valur Grétarsson og Ingimundur Óskarsson, sem nú leika báðir með Taktík og gerðu garðinn misfrægan með Sixties, Ingólfur "krulludýr" Magnússon bassaleikari, Hlynur Ben, Birkir Gísla gítarleikari og alltof, alltof margir fleiri.

Einhversstaðar í ferlinu breyttist kvartettinn í tríó, allavega oftast. Guðbjartur Árnason eðalmenni datt alveg óvart inn í sveitina sem fastur trymbill. Hann hafði reyndar ætlað að eyða deginum í annað. Þá var eiginlega enginn fastur bassaleikari fyrr en Brynjar Björnsson, bassaleikari Múgsefjunar, kom alveg óvart á ball. Þar sem hann var vel við skál þótti tilvalið að reyna að plata hann til liðs við bandið. Brynjar, í veikri von um borgun, sló til. Mundi svo lítið eftir því daginn eftir.

Guðbjartur asnaðist svo til að flytja til Danmerkur á því Herrans ári (The Lord´s Demon) 2007. Varð þá uppi fótur og fit, gott ef ekki krummafótur og sundfit, enda lítið varið í trommaralausa hljómsveit (þó það sé miklu minna rót þannig). Vildi þá svo heppilega til að um sama leyti datt Ingvar inn á konsert með hljómsveitinni Shadow Parade og sá þar og heyrði Magnús Örn Magnússon tromma. Þar sem þeir Ingvar og Magnús vinna í húrrandi samkeppni hvor í sinni hljóðfærabúðinni kannast þeir hvor við annan og var Magnús, þvert á vilja sinn, ráðinn með það sama. Magnús lék með sveitinni í fyrsta sinn í ágústlok 2007 og hefur skipanin haldist óbreytt síðan.

Svo er það að lokum bæði ljúft og skylt að minnast á hann Tryggva Vilmundarson, sem á það til að leika með sveitinni þegar svo ber undir - eins og til dæmis þegar vantar fjórða mann. Hann er, þrátt fyrir ungan aldur, feykigóður söngvari og hryngýgjusláttumaður og er ákaflega hressandi að hafa hann með. Vonandi verður það sem oftast í framtíðinni.

 

 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband